geislar.net
Geislar
Vængjaður Faraó

VÆNGJAÐUR FARAÓ kom fyrst út í Englandi .
Bókin hefur verið gefin út í18 útgáfum í Englandi og hefur
einnig verið þýdd á fjöldamörg tungumál. Hún hefur m.a.
komið út í eftirtöldum löndum:
Ameríku, Ástralíu, Danmörku (5 útgáfur), Noregi, Svíþjóð,
Finnlandi, Hollandi, Þýskalandi, Póllandi og Egyptalandi. -
Í öllum þessum löndum hefur hún orðið metsölubók.

Upplýsingar um verð og sölustaði

Joan Grant hefur frá barnæsku verið næmari en almennt gerist fyrir því, sem flestum er ósýnilegt. Einnig hefur hana dreymt marga einkennilega drauma, og með því að þjálfa draumminni sitt hefur hún öðlast margvíslega reynslu og fróðleik, sem hún hefði tæplega getað aflað sér með venjulegum hætti.

Þá var það eitt sinn, að Grant-hjónin fóru til Hurtwood i Suður-Englandi til að dveljast um tíma hjá vinafólki sinu þar, tveimur öldruðum systrum, Daisy og Elfie Sartorious að nafni. Svo heppilega vildi til, að faðir þeirra systra hafði ferðast um Egyptaland og haft heim með sér ýmsa egypska gripi og þar á meðal fimm tordýfla úr fornum grafhýsum, en eins og kunnugt er, voru tordýflar álitnir heilög bjöllutegund í Forn-Egyptalandi og iðulega festir á múmíur hinna framliðnu til að vera þeim til verndar, er þeir gengju fyrir dómstóla hinna fjörutíu og tveggja kviðdómara í dánarheimum eða „vestrinu“. Og aftur læt ég Joan Grant segja frá:
...Þarna voru fimm tordýflar og Leslie raðaði þeim á borðið fyrir framan mig. Tveir þeirra voru hvítir, þriðji grænn, fjórði dökkbrúnn og fimmti túrkisblár.
„Hvern þeirra viltu reyna fyrst?“ spurði hann, meðan hann yddaði blýant.
„Þann bláa seinast“, svaraði ég ósjálfrátt. „Hina er mér sama um“.
Hvítu tordýflarnir voru ekta, en ekkert merkilegir. Þeir hafa líklega verið nýir, þegar þeir voru settir á múmíurnar. Sá græni var frá dögum Thothmesar I, og hafði prestur segulmagnað hann sem verndargrip handa litlum dreng, til þess að hann fengi ekki martröð á næturnar. Eða réttara sagt myndi ekki drauma sína, sem voru eins og martröð fyrir lítið barn.
„Og hann hafði tilætluð áhrif“, sagði ég og lagði hann aftur á borðið.
„En hann var þannig gerður, að kraftur hans hafði ekki áhrif lengur en sex ár, því að annars hefði hann getað komið í veg fyrir, að drengurinn gæti þjálfað með sér draumminni, þegar hann væri orðinn nógu gamall til þess“.

„Viltu reyna þann seinasta? Vertu ekki of lengi að þessu, svo að þú fáir ekki höfuðverk“, sagði Daisy. Ég fullvissaði hana um, að ég væri ekkert þreytt, og þá fékk hún mér bláa tordýfilinn.
Um leið og hann snerti á mér ennið, fann ég, að hann var hlýr og lifandi.
„Þessi er miklu eldri en nokkur hinna. Hann var tekinn af prestynjumúmíu...
Leslie, manstu eftir neðanjarðargrafhýsinu, sem við sáum í Sakkara? Þessu með þremur fallhurðum úr steini í innganginum, sem lá að innra herbergi í laginu eins og Örkin hans Nóa. Það var ekki grafhýsi. Það var vígslustaður Anubisarpresta, þeirra sem muna...
Staðurinn, sem ég sé núna, er ekki sá sem við fórum til, en þó mjög líkur honum“.
Ég þagnaði í svolitla stund, því að ég skalf af kulda, þótt heitt væri í herberginu.
Elfie kom með teppi og breiddi það yfir mig.
„Þessi tordýfill kom ekki af múmíu. Ég hélt, að hún væri múmía, af því að hún er vafin eins og múmía, sem á að fara að jarðsetja, en það á að tákna, að andi hennar sé frjáls og geti farið og leitað viskunnar, eins og jarðarlíkami hennar hefði sleppt honum lausum... “.
Meira en klukkutíma hélt ég áfram að lýsa því, sem ég sá. Ung stúlka að nafni Sekeeta fór frá musteri Atets til þess að ganga undir vígslu. En áður en hún fengi vígsluna, varð hún að fara úr líkamanum fjóra sólarhringa og snúa aftur á kvöldi hins fjórða dags til að lýsa öllu því, sem hún hafði upplifað, fyrir skrifara, sem skrásetti orð hennar.

Allt í einu var ég ekki lengur utanaðkomandi áhorfandi, heldur sameinaðist ég vitund stúlkunnar sjálfrar.
„Þótt ég sé lifandi, verð ég að liggja sem hinir dauðu. Nú getur líkami minn ekki lengur verið mér vingjarnlegt skjól, sem ég get flúið til, þegar öfl hinna illu verða mér of rammefldir andstæðingar. Ég
get ekki heldur snúið aftur til líkamans til að verja hann, þegar hinir illu ætla að reyna að gera hann að sársaukafullu fangelsi. Hvernig á ég að geta orðið þjóð minni sem vitaeldur, þegar hjartað berst i brjósti mér, eins og það vilji þröngva sér út úr búrinu, sem rifbein mín mynda? Skyldi ég nokkru sinni framar fá að sjá sólina? Skyldi líkami minn nokkru sinni framar hlýðnast vilja mínum létt og ánægjulega? Skyldi ég verða eins og Hek-ket, sem brást í raun, en beið þó ei bana, og situr nú í húsagarðinum með blind augu og votar, lafandi varir, fangin í líkama, sem flugurnar einar hryllir ekki við að snerta? - Bráðlega, bráðlega munu þeir setja grímuna á andlit mitt. Augnlok mín mega ekki bærast. Ef líkami minn hlýðnast ekki vilja mínum, hvernig eiga þeir, sem horfa á mig, þá að geta lagt trúnað á orð mín, enda þótt ég sé spegill guðanna? - Ég finn bátinn rugga. Hann er ekki lengur á vatninu.
Nú eru þeir að fara með mig niður göngin. Hvílíkur jökulkuldi! Ég finn til myrkursins gegnum lokuð augun. Nú finn ég grímuna snerta andlit mitt.

Bráðum heyri ég steinhurðirnar falla. Jæja - nú eru allir farnir. Hurðirnar falla hver á fætur annarri. Það er eins og ég liggi innan í voldugri trumbu. Fall hurðanna rýfur kyrrðina, en brátt mun hún aftur ríkja... Ég verð að kyrra hjartslátt minn. Hann bergmálar svo þungt í eyrum mínum, að ég get ekki heyrt rödd visku minnar. Vertu kyrr, líkami minn, vertu kyrr og mér verðugur... Ég verð að gera þig að verðugu verkfæri mínu, svo að þú getir tekið við því, sem mér verður kennt. Ég verð að muna skýrt, skýrt... “.
Langt, langt í burtu heyrði ég rödd hrópa nafn mitt. Nei, nei, ekki nafn mitt, heldur nafn einhverrar annarrar. „Joan! Komdu aftur, Joan!“ Það var róleg rödd, en ákveðin. Ég opnaði augun með tregðu. Leslie beygði sig yfir mig og nuddaði á mér hendurnar. Tordýfilinn hafði hann tekið af mér.
„Komdu nú aftur. Þú ert sannarlega búin að vera nógu lengi í burtu“.
Minningarnar fóru að renna frá mér eins og tært vatn streymir niður í jarðgöng. „Talaði ég nógu skýrt? Heyrðirðu til mín? Skrifaðirðu það niður? Þetta var þýðingarmikið, sem ég var að gera að minnsta kosti var það þýðingarmikið fyrir sjálfa mig. En ég man það ekki lengur“.
„Þú þarft ekkert að reyna að muna það. Ég skrifaði það allt niður, þó að þú talaðir mjög hratt á köflum“.
Blái tordýfillinn lá á borðinu. „Það er miklu, miklu meira í honum“, muldraði ég, enn hálfsofandi. „Má ég ekki halda áfram eftir kvöldmat?“
„Þú ert búin að gera meira en nóg í dag“, sagði Leslie ákveðinn. Hann leit á úrið sitt. „Þú hefur aldrei verið svona lengi í burtu fyrr“.
Á þennan einkennilega hátt hófst rithöfundarferill Joan Grant, er nú hefur nýlega lokið tólftu bók sinni. Hún ýmist lýsti þeim sýnum, sem fyrir augu hennar bar, eða endurlifði beinlínis reynslu egypsku stúlkunnar, Sekhet-a-ra, sem var dóttir voldugs Faraós að nafni Za Atet, en langafi hennar var hinn fornfrægi Menes, er fyrstur konunga ríkti yfir öllu Egyptalandi. Sekeeta, eins og hún er venjulega nefnd í bókinni, tók við völdum sem Faraó ásamt bróður sínum, en áður dvaldist hún mörg ár í musteri til að búa sig undir vígslu í hinum frægu, egypsku launhelgum, en hinir innvígðu voru nefndir „vængjaðir“, þar eð þeir áttu að geta losað sig að vild úr jarðneskum líkömum sínum og svifið á brott frá takmörkunum jarðarinnar. Af þessu stafar nafn bókarinnar, VÆNGJAÐUR FARAÓ.

Vængjaður Faraó vakti fádæma hrifningu í Bretlandi, er bókin kom fyrst út, og það jafnt meðal bókmennta-gagnrýnenda, Egyptalandsfræðinga og almennings, enda varð hún metsölubók og hefur
nú komið út í 18 útgáfum. Þótti hún einhver fegursta, lærdómsríkasta og göfugasta bók, er nokkru sinni hafði verið rituð á enska tungu. Hún hefur farið sigurför um allan heim og hvarvetna hlotið lofsamlegustu dóma og orðið metsölubók.
Hvort lesendur kjósa að líta á hana sem skáldsögu, táknræna lýsingu eða raunverulegar endurminningar, eru þeir vitanlega sjálfráðir um, en mér persónulega fannst það auka mikið gildi bókarinnar að vita, hvernig hún varð til og mér fannst trúlegt, að fleiri kynnu að vera á sömu skoðun.

Þess vegna fékk ég leyfi Joan Grant til að láta þessar útskýringar fylgja.
Að lokum vildi ég mega óska öllum lesendum bókarinnar, að þeir mættu hafa aðra eins ánægju af lestri hennar og ég hef sjálf haft.
STEINUNN S. BRIEM.